Auglýst er eftir leikskólum og grunnskólum til þátttöku fyrir samstarfsverkefni Myndlistaskólans í Rvk og Reykjavíkurborg

Undanfarin ár hefur Myndlistaskólinn í Reykjavík átt í árangursríku samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, sem falist hefur í því að grunnskólar og leikskólar sem hafa verið valdir úr hópi umsækjenda hafa komið með hópa í myndlistarsmiðjur í Myndlistaskólanum.  

Hér með er auglýst eftir leikskólum til þátttöku í verkefninu veturinn 2021- 2022. Umsóknir þurfa að berast fyrir 21. maí 2021, en þátttökuleikskólar verða valdir í samráði við skóla- og frístundasvið.  

Myndlistaskólinn er til húsa á Hringbraut 121 en skólinn hefur jafnframt fengið inni í húsnæði á fallegum stað í Foldahverfi í Grafarvogi þar sem hægt verður að taka á móti leikskólum. 

TÍMARAMMI

Áætlað er að myndlistarsmiðjur haustsins fari fram á tímabilinu frá byrjun september til loka nóvember. Aftur verði hafist handa 10. janúar 2022 og vorönn ljúki í lok apríl. Gerð verða hlé vegna vetrarleyfa, auk jóla- og páskaleyfa.  

SÓTT UM ÞÁTTTÖKU FYRIR GRUNNSKÓLA

Þeir grunnskólar sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eru beðnir um senda umsókn til Sigfríðar Björnsdóttur hjá skóla- og frístundasviði, sigfridur.bjornsdottir@reykjavik.is, fyrir 21. maí. Í umsókninni skal koma fram fjöldi hópa og einstaklinga í viðkomandi árgangi. Ennfremur þarf að koma fram af hverju óskað er eftir þátttöku, hvers stjórnendur vænta af verkefninu og með hvaða hætti ætlunin sé að kynna reynsluna af smiðjunum fyrir öðru starfsfólki skólans svo hún nýtist sem best innan skólasamfélagsins.

UPPLÝSINGAR SEM KOMA ÞURFA FRAM

 • Nafn grunnskóla og ábyrgðarmanns  
 • Fjöldi hópa og einstaklinga í árgangi  
 • Ástæða umsóknar  
 • Væntingar um áhrif á starf grunnskólans 
 • Hvernig ætlunin sé að nýta reynsluna af smiðjunni 

FYRIRKOMULAG

Nemendur koma í Myndlistaskólann í fylgd tveggja kennara/starfsmanna viðkomandi grunnskóla sem taka virkan þátt í smiðjunum og aðstoða jafnframt kennara Myndlistaskólans við að halda utan um nemendahópinn. Bekkjum er skipt í tvo hópa og unnið undir handleiðslu kennara Myndlistaskólans. 

 • Yngsta stig/miðstig – smiðjan stendur í þrjá samliggjandi morgna og er unnið í um þrjá tíma í hvert skipti. Kennarar Myndlistaskólans koma að auki í 1-2 styttri heimsóknir í grunnskólann í tengslum við verkefnið.  
 • Unglingastig – smiðjan stendur í tvo morgna með viku millibili í Myndlistaskólanum og er unnið í um þrjá tíma í hvert skipti. Kennarar Myndlistaskólans koma að auki í 2-3 styttri heimsóknir í grunnskólann í tengslum við verkefnið. Samráð verður haft um tímasetningu á heimsóknum myndlistarmannanna í grunnskólann.

 

SÓTT UM ÞÁTTTÖKU FYRIR LEIKSKÓLA

Þeir leikskólar sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eru beðnir um senda umsókn á netfangið kristin.hildur.olafsdottir@reykjavik.is, fyrir 21. maí. Í umsókninni skal koma fram fjöldi barna í þeim árgangi/deildum sem leikskólinn sækir um fyrir. Ennfremur þarf að koma fram af hverju óskað er eftir þátttöku, hvers stjórnendur vænta af verkefninu og með hvaða hætti ætlunin er að nýta skráningavinnuna til að kynna reynsluna af smiðjunum fyrir öðru starfsfólki leikskólans og innan leikskólasamfélagsins.  

UPPLÝSINGAR SEM KOMA ÞURFA FRAM

 • Nafn leikskóla og ábyrgðarmanns  
 • Fjöldi barna í árgangi/deildum  
 • Ástæða umsóknar  
 • Væntingar um áhrif á starf leikskólans 
 • Hvernig ætluni sé að nýta reynsluna af smiðjunni og skráningum 

FYRIRKOMULAG

Börnin koma í Myndlistaskólann í fylgd leikskólakennara sem taka virkan þátt í smiðjunum en aðstoða jafnframt  kennara Myndlistaskólans við að halda utan um barnahópinn. Miðað er við að börnin komi 6-8 saman í hóp. Hver hópur kemur að jafnaði fimm sinnum og vinnur í 90 mínútur í hvert sinn undir handleiðslu kennara Myndlistaskólans sem allt eru starfandi myndlistarmenn. Myndlistaskólinn tekur á móti leikskólabörnum einn dag í viku, bæði fyrir og eftir hádegi. Áður en smiðjan hefst heimsækir deildarstjóri barnadeildarinnar leikskólann og kynnir verkefnið fyrir leikskólastjóra og þeim kennurum og starfsmönnum sem munu fylgja börnunum í smiðjurnar. Hluti af verkefninu er endurmenntunarnámskeið fyrir starfsfólk þátttökuleikskólanna sem starfsmenn greiða sjálfir hluta kostnaðar við.

Gert er ráð fyrir að leikskólakennararnir haldi einfalda skrá um verkefnavinnu barnanna í formi ljósmynda og texta og setji saman í ferilmöppu. Leikskólar geta leitað til Kristínar Hildar Ólafsdóttur ráðgjafa/verkefnastjóra á skóla- og frístundasviði eftir leiðbeiningum í tengslum við skráningarnar og hvernig má nýta þær áfram í starfinu.  

Nánari upplýsingar gefa Charlotta R. Magnúsdóttir deildarstjóri barnadeildar, charlotta@mir.is og Guðrún Benónýsdóttir verkefnastjóri hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík, gudrunben@mir.is.

 

 

Skipuleggjandi: 
Guðrún Jóhanna Benónýsdóttir
Staðsetning: 
Árbær og Norðlingaholt
Breiðholt
Grafarvogur
Grafarholt og Úlfarsárdalur
Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir
Miðborg og Hlíðar
Kjalarnes
Vesturbær
Efnisflokkur: 
Listir
Tímabil: 
September
Október
Nóvember
Desember
Aldur: 
4ra ára
5 ára
6 ára
7 ára
8 ara
9 ára
10 ára
11 ára
12 ára
13 ára
14 ára
15 ára
16 ára