Meira vinnur vit en strit: Tæknibreytingar á 20. öld, lífsstíll og stríðsár

Þessi heimsókn hentar vel fyrir nemendur í unglingadeild. Í heimsókninni er fjallað um tæknibreytingar í aldanna rás, með áherslu á þær miklu breytingar sem urðu á 20. öld. Fjallað er um tæknibreytingar út frá sýningargripum sem gefa innsýn í hvernig verkin voru unnin áður fyrr. Aðferðin er borin saman við það hvernig verkið er leyst af hendi í dag. Ljósmyndir frá 20. öld eru sýndar nemendunum á skjá í fyrirlestrasal. Þróun í samgöngum, fjarskiptum og húsagerð er til umfjöllunar ásamt aukinni sérhæfingu starfa og þróun verslunar og neyslumenningar. Áhrif þróunarinnar á lífsstíl og dægurmenningu eru rædd og það hvernig samspil margra þátta, þ. m. t. hersetunnar, gerir öldina ólíka fyrri öldum.

Markmið

  • Að nemendur fái innsýn í tækniframfarir, og þá helst á 20. öld
  • Að nemendur skoði verklag fyrri tíma með tilliti til nútímatækni
  • Að nemendur velti fyrir sér þeim áhrifum sem einstaka tækninýjungar hafa haft á samfélagið
  • Að nemendur átti sig á áhrifum seinni heimstyrjaldar á tækni og neyslu

Fyrirkomulag heimsóknar:

Tekið er á móti hópnum í anddyri safnsins. Nemendur hengja upp útifatnað í fatahengi í kjallara og setjast á bekk í anddyri þar sem safnkennari býður þá velkomna. Hann kynnir fyrir þeim heimsóknina og fer yfir þær reglur sem gilda á safni. Glærusýning með ljósmyndum er skoðuð í fyrirlestrasal. Að henni lokinni er staldrað við nokkra gripi á neðri hæð grunnsýningarinnar Þjóð verður til og svo haldið upp á efri hæð grunnsýningarinnar þar sem fjallað er um nýliðnar aldir. Flugstöðvarfæriband með munum 20. aldar er þar í brennidepli.

Leiðsögnin tekur um klukkustund. 

Bókun skólahópa í leiðsögn í Þjóðminjasafninu á Suðurgötu fer fram í gegnum bókunarsíðu safnsins.

Skipuleggjandi: 
Þjóðminjasafn Íslands
Staðsetning: 
Miðborg og Hlíðar
Vesturbær
Efnisflokkur: 
Læsi
Saga
Tækni og vísindi
Tímabil: 
Janúar
Febrúar
Mars
Apríl
Maí
Júní
Ágúst
September
Október
Nóvember
Desember
Aldur: 
13 ára
14 ára
15 ára