BINGÓ! Sögur hönnunargripa
„Ef stálið væri mjúkt eins og gamalt leður, eins og sifurhúðað roð sem leggst yfir engin, það fléttast niður að sjónum og rennur meðfram árbökkunum ásamt tímanum.”
BINGÓ! er smiðja í skapandi skrifum sem beinir í senn athygli að sögu hönnunargripa og nýjum sögum sem geta kviknað út frá þeim. Smiðjan er leidd af grafíska hönnuðinum Unu Maríu Magnúsdóttur og fræðslufulltrúa safnsins, Sigríði Sunnu Reynisdóttur. Í smiðjunni eru gripir á fastasýningu Hönnunarsafnsins notaðir sem innblástur að texta í gegnum leik með bingóspjald.
Markmið smiðjunnar er að vekja athygli nemenda á því hvernig upplýsingar eru kóðaðar inn í sjónræn einkenni hlutar og hvernig hversdagslegir hlutir geta verið kveikja fyrir ímyndunaraflið. Nemendur fá leiðsögn um fastasýninguna „Hönnunarsafnið sem heimili“ þar sem er lögð áhersla á að segja sögur á bak við valda gripi og hvernig þeir tengjast tímabilum í menningarsögunni, frá Rockefeller rúminu til Spírusófans og Rock and Roll ruggustólnum.
Bókanir og nánari upplýsingar: boelin@honnunarsafn.is
Nánar um Hönnunarsafnið: www.honnunarsafn.is