Halló, geimur!

Halló, geimur

Nemendum á öllum skólastigum er boðið í heimsókn í Listasafn Íslands. Í hverri heimsókn eru sýningar safnsins skoðaðar og nemendur hvattir til að taka þátt í umræðum um myndlist. Á hverju ári eru nokkrar sýningar í safninu sem sérfræðingar okkar leitast við að miðla með sem fjölbreyttasta og skemmtilegasta hætti!

Á sýningunni Halló geimur eru sýnd verk úr safneign Listasafns Íslands sem öll tengjast himingeimnum á einn eða annan hátt. Sýningin er sett upp sérstaklega með börn í huga. Verkaval, miðlun og skemmtanagildi fyrir börn og fjölskyldur þeirra er sérstaklega haft að leiðarljósi og hafa sýningarstjórar sýningarinnar leitað samstarfs við skóla, fræðimenn, hönnuði og listamenn til þess að gera sýninguna sem allra aðgengilegasta og fræðandi fyrir börn.

 

Nánar um sýninguna:

Fjarlægar víðáttur í óendanlegum alheiminum hafa frá upphafi verið manninum hugleiknar og í aldanna rás hafa listamenn túlkað og tekist á við hugmyndir sínar um geiminn og miðlað þeim með fjölbreyttum hætti.

Framúrstefnuleg verk Finns Jónssonar, sem fyrstur Íslendinga tókst á við geiminn í verkum sínum á fyrri hluta 20. aldar, miðla óheftri tjáningu listamannsins á töfrum himintunglanna sem eru leiðarstef sýningarinnar. Leyndardómar Vetrarbrautarinnar sem aldnir spámenn afhjúpa með forsögnum sínum um veðurfar og forlög manna eru Hildigunni Birgisdóttur og Svavari Guðnasyni innblástur. Norðurljósabar Halldórs Ásgeirssonar leiftrar með litadýrð og innsetning Steinu Vasulka, Of the North, hrífur áhorfandann með sér í áhrifamikilli upplifun.
Í verkum Ásgríms Jónssonar og Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) frá fyrri hluta 20. aldar sjáum við hvernig himintunglin tengjast þjóðtrú og ævintýrum þar sem vættir birtast mannfólki í tunglsljósi og blessuð sólin breytir tröllum í stein þegar dagur rís. Á sýningunni eru einnig mörg verk frá 7. og 8. áratug 20. aldar þegar framfarir í geimvísindum voru stórstígar og maðurinn fór í fyrsta sinn út fyrir gufuhvolf jarðar.

Geimurinn og listin eiga það sameiginlegt að vera forvitnileg og kvik, þar er stöðug hreyfing og alltaf er maður að uppgötva eitthvað nýtt þegar maður skoðar listaverk. Með hjálp Tuma, aðalpersónu bókarinnar Rauði hatturinn og krummi eftir Ásgerði Búadóttur myndlistarmann, geta yngstu gestir safnsins skoðað sýninguna á aðgengilegan hátt, sett upp gleraugu vísindamannsins og numið nýjan fróðleik!

Markmið heimsóknar

  • Að nemendur kynnist hugtökum á borð við myndlist, vísindi, náttúra, þjóðsögur og innsetningar.
  • Að nemendur auki skilning sinn á aðferðum og efnisnotkun listamanna.
  • Að nemendur öðlist þekkingu og skilning á því viðamikla ferli sem á sér stað í listsköpun.

Heimsóknin

Tekið er á móti nemendum í anddyri Listasafns Íslands við Fríkirkjuveg 7. Fjallað er um valin verk á sýningunni þar sem nemendur eru hvattir til að spyrja spurninga og æfa sig í samtali um listsköpun, verkferla og efnisnotkun listamanna. Nemendur fá þjálfun í að tengja listaverkin við umhverfi sitt, sögu og menningu.

Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en sem nemur einum bekk, eða um 25 nemendur.

Verið velkomin í heimsókn. Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is

Skipuleggjandi: 
Listasafn Íslands
Staðsetning: 
Miðborg og Hlíðar
Efnisflokkur: 
Listir
Læsi
Náttúra og dýr
Saga
Tækni og vísindi
Tímabil: 
Janúar
Febrúar
Mars
Apríl
Maí
Júní
Júlí
Ágúst
September
Október
Nóvember
Desember
Aldur: 
4ra ára
5 ára
6 ára
7 ára
8 ara
9 ára
10 ára
11 ára
12 ára
13 ára
14 ára
15 ára
16 ára
17 ára
18 ára