Heimsókn skólahópa | Allur aldur
Listasafn Reykjavíkur | Kjarvalsstaðir
Við bjóðum öllum nemendum á hvaða skólastigi sem er upp á ókeypis safnfræðslu um allar sýningar Listasafns Reykjavíkur. Í hverri heimsókn reynum við að skapa vettvang fyrir nemendur til að taka þátt í umræðum þar sem hver og einn fær tækifæri til að tjá sig um eigin upplifun og hlusta á aðra. Við getum hæglega aðlagað heimsóknina þeim áherslum sem hver hópur óskar eftir eða boðið almenna leiðsögn um sýningar og jafnvel útilistaverk.
Á hverju ári býður safnið upp á fjölda sýninga með verkum frá ýmsum tímum. Myndlist er sett í samhengi sem ein leið til þess að kanna heiminn í kringum okkur. List hefur þýðingamikið hlutverk í samfélagi og menntun. Með því að skoða myndlist þjálfum við okkur í gagnrýnni hugsun og hæfileika okkar til að eiga skoðanaskipti sem eru okkur nauðsynlegt veganesti í lífinu. Markmið þessu tengd er að finna í Aðalnámskrám allra skólastiga, menningarstefnu Reykjavíkurborgar og Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, og því sjálfsagður réttur barna á öllum aldri að fá að njóta lista og upplifa myndlist á eigin forsendum í samræmi við aldur og þroska.
Við fögnum skólahópum á öllum aldri sem vilja koma í safnið, með eða án leiðsagnar safnkennara. Við óskum þó eftir því að allir hópar láti vita af komu sinni með fyrirvara. Safnkennarar okkar geta tekið á móti hópum virka daga kl. 08:30–16.30. Heimsókn með safnfræðslu fyrir nemendur tekur ríflega eina kennslustund en hægt er að aðlaga hana eftir þörfum hópsins. Safnkennarinn kynnir valin verk á sýningum, hvetur til umræðu og býður gjarnan upp á létt verkefni inni í sýningarsal. Fyrir heimsókn er gott fyrir okkur að vita hvort og þá hvernig hópurinn sé undirbúinn, hvort óskað sé eftir áherslu á ákveðið viðfangsefni eða að tengja skuli við sérstakan hluta námskrár.
Miðað er við að hópar séu ekki stærri en sem nemur einum bekk, eða um 25 nemendur.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Hafa samband
+ 3544116400
Netfang: fraedsludeild@reykjavik.is
Vefsíða: listasafnreykjavikur.is
Facebook: listasafn reykjavíkur reykjavik art museum
Instagram: reykjavikartmuseum
Deila
