Íslenskar þjóðsögur / Korriró og Dillidó
Heimsókn á heimili og vinnustofu Ásgríms Jónssonar myndlistarmanns við Bergstaðastræti 74. Ásgrímur skipar mikilvægan sess í íslenskri listasögu sem brautryðjandi nútímalistar á Íslandi enda oft kallaður „faðir íslenskrar landslagslistar. Á vinnustofunni er sýning á þjóðsagnamyndum listamannsins, sagnararfi sem enn lifir og varpar ljósi á líf fólks í harðbýlu landi fyrr á öldum þar sem náttúruöflin leika stórt hlutverk. Ásgrímur var fyrstur íslenskra listamanna til að myndgera sögurnar en sjálfur ólst hann upp við lestur þeirra.
Markmið heimsóknar
- Að nemendur kynnist hugtökum á borð við: Myndlist, þjóðsögur, sýning og safn.
- Að nemendur nái tengingu við menningararf sinn og íslenska listasögu.
- Að nemendur fái innsýn inn í heim listamanns, heimili hans og vinnustofu.
Heimsóknin
Tekið er á móti hópnum á Bergstaðastræti 74. Þá er Ásgrímur kynntur til sögunnar og nokkrir af hans persónulegu munum skoðaðir ásamt listaverkum sem prýða stofuna og svefnhergið hans. Safnkennari hvetur nemendur til að taka virkan þátt í samtali og spyrja spurninga.
Vinnustofan hans Ásgríms er á efri hæð íbúðar og þar má sjá sýninguna Korriró og Dillidó, þjóðsagnamyndir. Nemendur skoða sýninguna og velta um leið fyrir sér íslenskum þjóðsögum.
Heimsóknin tekur um klukkustund og miðað er við að hópar séu ekki stærri en 20 manns.
Verið velkomin í heimsókn. Hægt er að bóka tíma á mennt@listasafn.is
Deila
